Sunday, November 30, 2008

Þakkargjörð

Er ég rita þessa færslu þá er þakkargjörðarhelgin að syngja sitt síðasta.

Við Íslendingar erum kannski ekki alveg að tapa okkur yfir þessari hátíð eins og má búast við, en þetta virðist spila ákveðna rullu í hugum Bandaríkjamanna. Þetta er stærsta ferðahelgin í Bandaríkjunum og New York borgin virðist hálftæmast yfir þessa helgi.
"Me & My Pumpkin Pie"

Ég að vitaskuld lagði mitt af mörkunum og bakaði mína fyrstu böku og ekkert minna en graskersböku(pumpkinpie) sem vakti feiknalukku. Fór ég í matarboð hjá Rob og Janette í Redhook (Brooklyn). Þetta var sirka 13 manns þar sem allir komu með eitthvað fyrir hlaðborðið. Máltíðin og félagsskapurinn var mjög góður. Fleiri myndir á féssíðunni minni. Það er að segja fyrir þá sem eru svo heppnir að vera digital vinir mínir, annað en bara analog vinir mínir.

"Íslensku ullarpeysu servíetturnar að gera góða hluti"

Svo til þess að fylgja formúlunni þá fór ég í bíó (stærsta bíóhelgi kanans, skilst mér) og sá Slumdog Millionaire. Feiknagóð fantasía/drama frá Danny Boyle. Mæli hiklaust með henni. Milk er svo næst...

Annars virðist allt benda til þess að maður komi heim yfir jólin 17.-29. des. Þannig að þetta verður það sama. Ginflaska tæmd á Þórsgötunni, maður settur í barnapössun næstu klukkustundir eftir það, svo jafnvel spilaður smá urban bolti og gripið í nokkur borðspil. Þið þekkjið þetta. Mikael Allan verður líka á skerinu þannig að það eru sannarlega jól. Jafnvel spjallað um kreppuna fyrst maður er á Íslandi.

Enda svo á einum gullmola sem féll mér í skaut við rölt um veraldarvefinn. Ef þetta fær þig ekki til að brosa út í annað og kinka kolli í takt synth-ana þá skal ég hundur heita...

Thursday, November 6, 2008

Löng helgi

Seinasta helgi einkenntist af yfirkeyrslu en góðri gleði. Hér er smá samantekt.
Hrekkjavaka
Dagurinn byrjaði í kjallaranum á Lafayette þar sem Danielle var búinn að hrúga nokkrum saman í búningaverksmiðju. Var mesta vinnan lögð í garðbúning og eina gangandi diskókúlu.
Annars tókum við Danielle nágranni á neðri hæð okkur saman þar sem ég var garðálfur og hún garðurinn. Nokkuð gott kombó...
Stefnan tekinn á hrekkjavökuskrúðgönguna í West Village. Aragrúinn af fólki samhliða fjölbreyttu úrvali af búningum var mjög yfirþyrmandi en skemmtilegt. Þar á meðal stærsti Thriller dans síðan fyrir stríð.

Eftir það var stefnan tekinn á tónleika með Apes & Androids. Hljómsveit sem ég vissi ekkert um en hljómsveitin sjálf var mjög góð og mjög góðir live.

Kveldinu var svo lokað á partýi í Williamsburg.

Maraþon

Á sunnudagsmorgni var vaknað átta um morginunn til þess að leggja lokahönd á þá gleði sem íbúar 346 Lafayette þekkja svo vel, Maraþon gleði. En eins og sumir vita þá eru New York búar ekkert að slá við þegar kemur að maraþoninu. 34 þúsund manns tóku þátt í ár og var hlaupið framhjá húsinu okkar eins og fyrri ár. Vöfflur, annað gúmmelaði og írskt kaffi var á boðstólnum við viðburð sem kom mér á óvart hversu vel ég skemmti mér...Birgir Páll
Birgir Páll kom svo á mánudagskveldið og dvaldist í borginni í 12 tíma. Nýttum við þær klukkustundir við að drykkjusvol og vitleysu. Mjög gaman að fá félaga Birgir í heimsókn.
Mér finnst það alltaf jafn frískandi að geta spjallað við einhvern á íslensku frekar heldur en á kanalands ensku.

Obama

Þriðjudagur í þynnku hófst við að ég svaf yfir mig og allir aðrið voru bullandi hamingju yfir kosningunum. Það var seint um kveldið sem ég kom mér loksins út til þess að taka þátt í kosningavökunni. Labbaði inn á Time Square 5 mínútum áður en Obama var tilkyntur sem næsti forseti bandaríkjanna. Viðbrögð allra á yfirfullu torgi tímans voru svo yfirþyrmandi að ég hélt að ég yrði úti vegna hamingju kanans. Fólk grét, hló og dansaði af gleði. Ég upplifði svo mest "Independence Day, Proud to be American" augnablik við að hlusta á ræðu Obama standandi út á miðri stappfullri götu á Time Square. Standandi upp við leigubíll sem hafði skrúfað niður rúðuna og blastað ræðunni(sem og allir bílar höfðu gert) og horft á einn af skjáum torgsins. Fá svo gæsahúð við það þegar Obama endar ræðuna og crowdið byrjar að chanta "Yes we did" og tapa sér. Sjæse hvað það var mikið apeshit.

Saturday, November 1, 2008

Fjöllin eru vakandi...


Ég veit að það er kreppa en hægið aðeins á ykkur að vera kominn í ruglið.

Monday, October 27, 2008

Det Snurrar I Min Skalle


Eftir að hafa rekist á þetta hjá þeim kumpánum í topp fimm á föstudegi varð ég að henda þessu inn. Taumlaus gleði og öflugt vídeó...

Annars er bara undirbúningur fyrir Halloween á föstudaginn, NYC Maraþon partý á sunnudaginn og ekki má gleyma Birgi Páll Auðunnsyni sem er að detta í heimsókn um helgina ásamt Sunnu.

Allt í allt virðist allt vera á fleygiferð.

Sunday, October 26, 2008

Tuesday, October 21, 2008

Build-O-Bama

Maður er kannski orðinn full mikil "Bama" sleikja hérna en ég varð að leggja þetta inn.

Final from Jeffm on Vimeo.

Sunday, October 19, 2008

Íslenskum pólítíkusum er kannski viðbjargandi?

"Össur Skarphéðinnsson iðnaðarráðherra sagði að hið nýja Ísland sem nú muni rísa muni verða töluvert öðru vísi en það sem var. Þar verði græn hátækni miklu mikilvægari en áður". mbl.is

Einmitt þegar maður var viss um að nú yrði allt virkjað sem hægt sé að virkja á þessum kletti. Þeir eru víst ekki allir gegnsósa hálfvitar.

En sjáum til....

Saturday, October 18, 2008

18 ár...


Einhvernveginn verður það erfiðara og erfiðara að skammast út í Kuyt. Vinnusamasti leikmaðurinn við Mersey. Gaman að sjá Liverpool vera að vinna leiki þar sem þeir lenda undir. Þeir hafa engan veginn verið í þeim gírnum síðastliðinn ár.

Annars verður einhver að gefa mér upp slóð þar sem ég get horft á leikina í beinni á netinu. Ég get ekki verið að vakna eldsnemma og taka á mig klukkutíma ferðalag til þess að horfa á leikina(kannski þegar þeir eru svona). Einhver?.....

Friday, October 17, 2008

Klukk tíu x fjórir

Magnea sá víst um að klukka mig með nokkrum vel völdum spurningum.
Maður á víst ekki að venja sig að segja nei við hana...

Þannig að...
1. Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:

- Umönnun á Kópavogshæli
- Skúrað í Viðeyarstofu
- Busboy á skuggabarnum
- Í fullu starfi við að keyra á hjá bæjarvinnu Kópavogs

2. Fjórar íslenskar bíómyndir sem ég held upp á:
- Sódóma Reykjavík
- Englar Alheimsins
- Nói Albinói
- 101 Reykjavík

3. Fjórir staðir sem ég hef búið á:
- West side of K.
- Mín glæstu heimkynni á Háteigsvegi
- Lyngby (Danmörku)
- Brooklyn

4. Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
- Portúgal
- Liverpool (Bretland)
- Landskrone (Svíþjóð)
- New York

5. Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
- Its Always Sunny in Philadelphia
- Arrested Development
- New York City Soundtracks
- The Wire

6. Fjórar síður sem ég skoða daglega:
- mbl.is
- ffffound.com
- brooklynvegan.com
- ohmyrockness.com

7. Fernt matarkyns sem ég held upp á:
- Sushi (af öllum stærðum og gerðum)
- Almennileg kjötsúpa (fyrir kreppuna)
- Hvað sem er á matseðlinum hverju sinni hjá Marlow & Son
- Kjúklingarétturinn hennar mömmu

8. Fjórar bækur/blöð sem ég held upp á/les oft:
- Hundrað ára einsemd
- Last Exit to Brooklyn
- New York Times
- Not For Tourists (New York)

9. Fjórir staðir sem ég vildi vera á núna:
- Handan við hornið á þessari kreppu
- Í faðmi fjölskyldunar
- Týndur í heiminum með bakpoka á bakinu og margra mánaða ferðalag í sjóndeildarhringnum
- Undir stýri við akstur þvert yfir bandaríkin (áætlað 6 vikna plan í lok dvalar minnar í ríki Obama, vor 2010. Áhugasamir skrái sig hér fyrir neðan)

10. Fjórir bloggarar sem ég á að klukka:
- Bloggarinn sem lætur okkur hin líta út eins og óskrifandi bjána - Lygi Xela
- Siggi & Sól
- Séra Flame (reisa þennan úr gröfinni)
- Vignir Rafn

Vill síðan enda á nokkrum auglýsingum úr herferð sem fyrirtækið mitt var að pússla saman fyrir kosningaherferð Obama.
Mac vs. PC auglýsingarnar yfirfærðar á McCain og Obama

The Fundamentals of the Economy from Vote Bama on Vimeo.

Lobbyist for McCain from Vote Bama on Vimeo.

Suspension from Vote Bama on Vimeo.
votebama.com

Njótið vel.....

Thursday, October 16, 2008

Joe plumber



Forsetakosningaherferðin eru í fullum þunga. Ástandið hér í New York er svolítið hlutdrægt fyrir herra Obama og verð ég að segja það að það væri gaman að fá nokkra Rebúblikana inn í umræðuna í kringum sig hérna. Hleypa smá lífi í umræðuna. Frekar líflaust þegar allir eru gegvænlega sammála.

Annars er ég bara að bíða að við komumst í öryggisráðið. Það mun beina okkur á hina beinu og réttu braut í hinum síðustu og verstu...

Annars er áhugavert hvað verðmætamatið hjá manni hefur breyst síðustu vikurnar. Maður blikkar ekki Við að heyra að við höfum eytt kvartmilljarð í kosningaherferð fyrir öryggisráðið, finnst að við hefðum auðveldlega getað eytt þeim mun meira í þá gleði. Nóg var af milljörðunum í gangi nú bara fyrir nokkrum vikum síðan.

Jæja krakkar...

Friday, October 10, 2008

Nýlentur í heimsborginni

Legit, nýlentur og kominn í bólakaf með lungun full af lofti í borginni sem aldrei sefur. Fyrsta stopp var kveldstund með Beck Hansen. Helvíti ánægður með að hafa komist á þessa blessaða tónleika. Get strikað hann af listanum. Húsnæðið var gullfallegt en út í rassgati. United Palace var lengst uppá 175 stræti. MGMT hitaði upp og voru mjög þéttir. Sumir vilja meina að þeir hafi verið betri en Beck. Ég vill blása á það. Beck tók við og var keyrslan á honum gríðarleg. Eins og sést á settlistanum þá hljóp hann nokkuð vel yfir ferilinn, auðvitað voru nokkur lög sem maður hefði viljað fá en á það ekki að vera þannig.

Hérna er settlistinn:

Loser
Nausea
Girl
Timebomb
Minus
Soul of a Man
Mixed Bizness
Nicotine & Gravy
Que Onda Guero
Ghettochip Malfunction/Shake Shake Tambourine/Clap Hands
Devils Haircut
Think I'm in Love
Modern Guilt
Orphans
Walls
Missing
Chemtrails
Golden Age
Lost Cause
Where It's At

Uppklapp:
Gamma Ray
Leopard-Skin Pill-Box Hat
new song
E-Pro



meira seinna....

Tuesday, October 7, 2008

Komradinn kveður

Kaninn hefur loksins tekið við sér og ákveðið að samþykkja mig sem vinnuhest fyrir hið fallandi kapítalíska stórveldi. Stórfurðulegt miðað við að maður er sama sem kominn með rússneskt ríkisfang. Á pappírum er ég með leyfi til þess að þjösnast í vinnu hjá þeim næstu 18 mánuði. Tek því fagnandi að flýja klakann og fá borgað í dollurum. Sjáum til hversu lengi það mun endast.

Fyrsta sem verður gert við lendingu í eplinu verður að sjá komrad Beck í Harlem...

Flýg miðvikudaginn 8 október út. Bið að heilsa öllum og þakka fyrir dvölina og góða tíma. Verð á Kársnesbrautinni í faðmi fjölskyldunnar á þriðjudagskveldið ef einhverjir vilja stinga inn hausnum.

Ef ekki þá sjáumst við samt allavega vorið 2010.


Tuesday, September 16, 2008

leitað að nýju looki

Eftirfarandi mynd mundi ég segja að bæri vitni um að ég hafi meiri frítíma eftir að NYC Soundtracks serían loksins leið undir lok. Vil ég þakka monitor.is fyrir að hafa ofan fyrir mér meðan ég ætti að vera að vinna. Ég var bara ólmur að vita hvernig ég mundi líta út á hinum mismunandi tímabilum liðinar aldar. Persónulega er ég hrifnastur af 1956 (neðst til hægri).

Hugurinn leitar á heimaslóðir. Lendi ég nokkrum tímum áður en Kiddi og Sara ganga kirkjugólfið á laugardeginum. Gott stuff.

Það stefnir allt í það að ég sé að fara að skrifa þriðju færsluna í röð um að ég sé að koma til landsins. Vík af þeirri braut hið snarasta og vill lauslega snerta á þeirri staðreynd að ég var í afslöppun á Union Square að fá mér að borða og ákvað þá Bylgja Ægisdóttir að tölta framhjá. Það virðist vera að hún sé nýflutt til New York. Ég er ennþá að fríka út yfir þeirri súrri tilviljun að hafa rekist á hana.

Hélt garðveislu á sunnudaginn í tilefni endaloka sjónvarpsseríunar. David Garvoille herbergisfélagi minn tók sig saman og smellti af nokkrum myndum.
Hér er ég voldugur við grillið.
Gamli góði bananinn með súkkulaði, hnetum og ís á grillið vakti feiknamikla lukku. Það ásamt handbolta er að slá í gegn í Brooklyn.

Arlavega á heimleið... Pálmi, "take it away"...

Friday, September 5, 2008

Staðfest heimkoma....

Já það er rétt. Smá uppfærsla. Ég mun lenda á skerinu föstudaginn 19. september. og yfirgef pleisið þann 30. sept. Brúðkaup, 3 blikaleikir og Urban föstudagsbolti á dagskrá meðal annars.

Bara svo þú persónulega sért "in the know".

Sjáumst...

Wednesday, August 27, 2008

Lítil færsla fyrir þyrsta...

Smá status check

Atvinnuleyfi
: Yfirmenn mínir loks að taka við sér og áætla að vinnuleyfið detti inn jafnvel á næstu vikum. Með loðnum loforðum um væna launahækkun og fríðindi. Með þeim afleiðingum að ég dveljist í þessum bæ eitthvað áfram.

Heimkoma: Áætluð heimkoma yrði 19. september og vonast er að ég gæti dvalist á heimaslóðum í rétt rúma viku, náð þremur blikaleikjum en það sem meira er, náð að verða vitni að öldnum vini stíga skrefið til fulls. Séra Flame mun stíga á svið sem honum er mjög hugleikið, Langholtskirkju/Digraneskirkju og gifta sig.

Almenn heilsa og andlegt ástand nokkð gott. Hef náð að rata minn veg á hjólinu án beinbrota og mikilla trafala. Þessi bær er að fara nokkð vel með mig. Hlakka samt til að rölta um á heimaslóðum og sjá kunnugleg andlit.

Smá ástarballaða að gefnu tilefni. Hvar værum við án þeirra....

Tuesday, August 19, 2008

helgin sem leið....

Vaknaði klukkan átta um morguninn á laugardaginn til þess að sjá strákana okkar komast í átta liða úrslitin. Kanadjöflarnir hafa ekki hundsvit á handbolta sem lýsir sér í því að ég finn hvergi leikina í sjónvarpi. Þarf að fara online til að finna þetta helvíti. Alltaf áhugavert að sitja í herberginu mínu og öskra á tölvuna mína eldsnemma morguns. Maður vaknar allavega við það. Fór eftir það upp á 11. stræti og B breiðstræti til þess að sjá minn mann Aurelio spila síðustu 15 mínuturnar í fyrsta leik Liverpool á þessu tímabili.
Stemmingin þar er verð ég að segja nokkuð voldug. Hef ekki upplifað svona sterka stemmingu á skerinu...

Eftir það var brunað upp á Central Park til að sjá Battles spila. Nokkuð þétt.
Eftir Battles var grillveisla í bakgarðinum hjá mér, nokkuð góð gleði.

Eftir að hafa tekið sér laugardaginn í "afslöppun" tók við ruglið enn á ný. Að klára eitt svona stykki þátt af NYC Soundtracks á innan við viku, hverja viku, er frekar mikil bilun. En ég get hughreyst mig við að eftir næsta þátt fáum við tvær vikur til að klára næsta þátt, því það verður ekki þáttur næsta sunnudag.

Annars er ég að vinna í því að glepja eldri bróðir minn hann Friðjón til þess að heimsækja mig í október til þess að koma með mér á Beck tónleika sem ég hef áskotnast miða á. MGMT og Spoon hita upp (ekki þó Emilíana Torrini, heldur hitt Spoon bandið).
Sætin eru heldur ekki amaleg (X marks the spot).

Auk þess var ég að fá fregnir af því að Neil Young mun spila í Madison Square Garden 15. Des.
Ég mun ekki missa af því. Áhugasamir hafi samband.

Er núna að vinna á miðnætti og bíða eftir Pólland leiknum sem byrjar 2am.

Saturday, August 16, 2008

Shining Escalade

"útsýni af Manhattan brúnni"
Maður er nú kominn með grænt fótspor á stærð við nálarauga. Ég er kominn í hóp blóðheitra hjólreiðramanna í borg New York borgar.
Er fákurinn jafnt notaður fram og til baka í vinnu og nú bara fyrir 'rollin' í hverfinu mínu. Fer ég yfir manhattan brúnna til þess að komast í vinnuna og tekur það mig rétt rúmlega 20 mín (samanber 30 með lestinni).

Ég var búinn að vera með hugann við að ráðast í þetta verkefni nú í nokkurn tíma og þegar ég sá þennan stálfák á markaðnum mínum var ekki aftur snúið.

Eins og kannski þið getið séð þá er ég loksins búin að fjárfesta í myndavél þannig að þið megið búast við aðeins myndrænni færslum en gerist og gengur. Þess heldur getið þið scrollað aðeins niður og smellt á myndaalbúmið mitt og snuðrað um þar.

Þangað til seinna.

Friday, August 8, 2008

Thug Life...

Fólk virðist vera komið með nóg af nostalgíufærslunni minni þannig að það er jafnvel að maður fari að uppfæra mitt fólk um mína hagi....

Er búin að vera vinna eins og berserkur síðastliðnar vikur. Fjórði þáttur mun fara í loftið næstkomandi sunnudag (það er sunnudaginn 10. ágúst ef ég skyldi láta jafnlangan tíma líða og milli færsla aftur). Lítið annað að frétta nema að það virðist vera að ég sé komið í kerfið hjá kananum. Ekki þó vinnuleyfi eins og maður mætti halda. Maður er svoddan thug að maður náði sér í sekt fyrir drykkju á almannafæri. Með bjór undir hönd 3 um nóttu á laugardegi í Williamsburg. Friggin 5-0.

Ekki stórmál þannig, 25 dollarasekt og málið er dautt.

Týpískt þó ef að ganga mín með Stellu í krumlunni muni koma mér í bobba með vist mína á þessu pleisi.

Leyfi ykkur að hafa áhyggjur af mér þangað til næstu færslu...

Peace out....

Monday, July 21, 2008

Ein færsla fyrir nostalgíuna...


Var að rekast á þetta. Ég veit ekki um ykkur en ég man eftir mér að horfa á þessa seríu sirka 6 eða 7 ára með Mike og fríka út af hræðslu af misvel gerðum geimverum sem hafa ekkert gott í hyggju fyrir blessaða mannkynið. Rámar að stöð 2 hafi sett þennann gullmola í loftið.

Eitthvað segir mér að þessir þættir eldist ekki vel. En þau fá samt plús fyrir góða búninga og funky "shades".

annars lítið að frétta

Sunday, July 20, 2008

6-1 !!!!!!!



Blikarnir virðast hafa átt stórleik gegn skagamönnum...

Erum við að tala um þriðja sætið?

Son of a mother

Til hamingju blikamenn

"Wish I was there"

Saturday, July 19, 2008

Afslöppun í garði Greene!!!

Fyrsta fríhelgi mín í langan tíma...
Hef ég skipulagt hana af miklum eldmóð, þrautseigju og útsjónarsemi.

Öll helgin skal vera undirlögð af eftirtöldu:

1. Hanga.
2. og gera ekki neitt.

Enn og aftur hef ég misstigið mig í skipulagningu. Gerði þau mistök að fara aftur að spila fótbolta í Fort Greene. Nú í tæplega 40 gráðum og massívum raka.

Það virðist vera að ég þurfi að bíða eftir haustinu til þess að geta spilað bolta af fullri getu. Ég endist alltaf í sirka hálftíma í svona hita og þá verð ég að láta mig hverfa til þess að innbyrða sirka líter að vatni og kæla mig niður. Ég er ekki byggður fyrir svona hita.

Annars er ég að vinna í því að leigja íbúðina mína út. Mínir elskulegu foreldrar virðast jafnvel vera að komast til botns í þessu. Aldrei að vita.

Hjörvar í Tyrklandi með Robba.

Megi guð geyma Tyrkina gegn þessum vitleysingum

Annars er ég að stefna á að sjá Feist í næstu viku.

Flestir ættu að kannast við stúlkuna, en hún sló í gegn með annari plötu sinni "The Reminder" í fyrra. Þeir sem ekki kannast við um hvað ég tala mæli ég með að sá/sú vinni úrlausn vanda sinna og útvegi sér eintak. Undirritaður ábyrgist gripinn.

Hér er hún ásamt nokkrum hressum félögum úr stræti Sesams

Sunday, July 13, 2008

NYC Soundtracks

Fyrsti þátturinn af NYC Soundtracks fer í loftið klukkan 8:00 PM að mínum staðartíma. Hef ég varið mestum mínum tíma síðan East Pleasant réð mig í þetta verkefni. Þetta ku vera fyrsti þátturinn af 8. Fyrir frekari upplýsingar mæli ég með að horfa á meðfylgjandi vídeó. Þetta er fyrsta hólfið af fyrsta þættinum (11 mín.). Nokkuð skemmtilegt verkefni. Af því tilefni munum ég og samstarfsfélagar mínir mæla okkur mót, horfa á þáttin og gera okkur glaðan dag(kveld).

Bið ykkur vel að lifa...

Ég er farinn til að reyna gera mér dælt við þáttastjórnandann...

farið þið því vel með ykkur

Monday, July 7, 2008

Thursday, July 3, 2008

Gamla hreiðrið aftur á markaðinn



Ég er að fara setja þessa elsku aftur á markaðinn í upphafi ágúst. Þið sem hafið bara þokukenndar minningar um óðalsetur mitt þá er þetta þriggja herbergja höll í "hjarta" borgarinnar. Drekkhlaðið af gourmet húsgögnum samhliða því að vera bakkafull af sál.

Áhugasamir ásamt öðrum með ábendingar hafið samband við mig (HermannHermannHermann@gmail.com)

Monday, June 30, 2008

Knoxville

Frekar skrautleg ferð lokið í biblíubelti Bandaríkjanna. Ferðin var allt sem ég hafði hugsað mér og meira til.

Eitt hefur þó kyrfilega sannreynt sig. Ég þarf að fá einhverja aðra til að sjá um mína ferðahagi. Sumir mættu halda að missa af fluginu til Íslands í SÍÐUSTU viku hafi verið nóg til þess að hrista upp í undirrituðum til þess að vera aðeins meira var um sig. En nei....

Rétt rúmlega tveim dögum áður en ég lagði af stað þá fór ég á netið og fjárfesti mér í flugmiða til Knoxville og til baka fyrir tónleikana. Taldi ég mig standa mig nokkuð vel. Allt þar til ég mæti á svæðið á Newark flugvellinum í New Jersey. Þá kemur það í ljós að ég hafði bókað flugið fram og til baka seinustu helgina í JÚLÍ en ekki júní. Þannig að ég var sirka 4 vikum á undan áætlun uppi á flugvellinum. Þar þurfti ég að punga út 150 dollurum til að breyta flugmiðanum til Knoxville.

Lítið annað í stöðunni heldur en að kyngja þessu. Smávægileg töf á fluginu en ég var kominn um áttaleytið á laugardagskveldi í miðbæ Knoxville þar sem Mary Ward tók á móti mér ásamt föruneyti hennar þar sem stefnan var tekinn á Toots, lítinn bar nokkuð frá miðbænum. Þar var rudda góð country kareókí stemming. Þar var drukkið mikið af vískí og Pabst Blue Ribbon könnum sem er orðinn minn drykkur þarna í kanalandinu virðist vera. Vakti það mikla lukku þegar ég var búin að drekka í mig hugrekki til að taka Sweet Caroline. Heimamenn virtust þekkja það lag eitthvað. Allavega var hressilega tekið undir. Ég spilaði Íslendingaspilinu all hressilega út það kveld og var það líka að svínvirka svona vel. Það kveld endaði svo á því að hálfur barinn tók saman Piano Man saman. Allt í allt mjög góð upphitun fyrir næsta dag.
YeeHaw plakat búðin í miðbæ Knoxville

Sunnudagurinn var tekinn í túristaafslöppun. Gengið um bæinn og tekið myndir(kemur inn seinna). Var búin að steingleyma leiknum en ég rambaði inn á hann fyrir tilviljun þegar ég labbaði inn á bar til þess að nota salernið. Nokkuð margir að fylgjast með leiknum. Sem ég held að hafi allt verið aðkomufólk til þess að sjá tónleikana. Mér skilst að Knoxville búar séu lítið hrifnir að knattspyrnu. Arlavega Spánn vann :) Þannig að ég rambaði nokkuð sáttur út og taldi Tom Waits loks tilbúinn til þess að taka á móti mér. Fór ég á tónleikna með Mary hýslinum mínum ásamt tveimur öðrum stelpum sem keyrðu til Knoxville frá Fíladelphíu fyrir minn mann.

Sætin voru hörku góð. Dead center önnur röð á svölunum. Tom kom sá og sigraði. Renndi í gegnum mikið af sínum ferli, sagði sögum, sló um sig nokkrum bröndurum, rokkaði stíft og meyrði allnokkur hjörtu allt saman í rúmum þremum klukkustundum.

Lagalistinn:

Lucinda/Ain't Goin Down to the Well
Way Down in the Hole
Falling Down
Hang Down Your Head
Chocolate Jesus
God's Away on Business
Get Behind the Mule
Metropolitan Glide
Trampled Rose
Cold Cold Ground
The Part You Throw Away
Rain Dogs/Russian Dance Black Market Baby
Black Market Baby Rain Dogs/Russian Dance
On the Nickel
Christmas Card from a Hooker in Minneapolis
You can Never Hold Back Spring
Lucky Day
Innocent When You Dream
9th and Hennepin
Lie to Me
Eyeball Kid
House Where Nobody Lives
Make it Rain
Jesus Gonna Be Here
House Where Nobody Lives
Eyeball Kid
Make It Rain

Fannin Street
Come on up to the house



Gríðarlega öflugir tónleikar og verð ég að segja að þeir séu nokkuð ofarlega á listanum yfir þá betri sem ég hef séð.

En sökum hjákátlegra ferðaaðstæðna mína þá tók ég þá furðulegu afstöðu að taka Greyhound rútu til New York. Ódýrasti kosturinn og taldi ég það vera rómantískan og mjög svo "Tom Waits-legan" kost í stöðunni. Sú skoðun rann mjög hratt af mér. Rútan lagði af stað rétt eftir miðnætti frá Knoxville og eyddi ég næstu 18 klukkustundum í þessari !%!#$%&# rútu. Allt í kringum mig voru miðaldra þeldökkar konur á leið á kirkjuþing í New Jersey. Þeirra helstu áhyggjur voru að kirkjan þeirra myndi ekki geta flutt messu sökum fjarveru þeirra. Þar sem þau voru nú allar í Gospel kórnum.

View Larger Map
Þannig að sirka þrettánhundrum kílómetrum seinna um kveldmatarleytið á mánudeginumgÉg var að lenda svo í New York. Þreyttur, sveittur og agalega frústreðaður á þessum kristnu hefðarfrúm frá Chattanooga. Aldrei aftur.

Að vísu aldrei segja aldrei... Ég á nefnilega ennþá flug frá Knoxville til New York í lok júlí :)

og þannig lýkur lengstu færslu minni til þessa...

þangað til næst

Friday, June 27, 2008

Lentur aftur í hringiðunni

Ég er kominn aftur í vitleysuna.

Lenti á laugardagsmorgni á Íslandi, sökum þess að hafa misst af fluginu heim á föstudeginum :( Algjör vitleysa af minni hálfu þar sem ég las af vitlausum flugmiða hvenar flugið væri. Fyrsta stopp var að hitta á Anitu hans Friðjóns. Gullfalleg stúlka þar á ferð.
Brunaði svo beina leið til Stykkishólmar með Friðjóni til að stinga hausnum inn á fjölskylduættarmót. Góð gleði og grill. Tapaði samt sirka 5 sinnum í röð í viking kubb.
Síðan var stefnan tekinn aftur á borgina. Þórsgatan varð fyrir valinu þar sem Björn Valsson hýsti mig og Sapphire gin flöskuna mína. Það var langt gengið á flöskuna áður en herjað var á bæinn.

Sunnudagurinn var svo tekinn nokkuð í móðu og þynnku. Sólbruni á Rútstúni og afslöppun á kársnesinu yfir lélegum Spánn - Ítalíu leik.

Mánudagurinn var tekinn með skipulögðum hætti þar sem lausum endum var stungið undir teppið, Prinsinn þeirra Andra og Maggý heimsóttur, Tercelinn kvaddur, Háteigsvegurinn skipulagður og horft upp á Breiðablik tapa fyrir Fram.

Brunað til NYC svo á þriðjudeginum. Mun vinna eins og skepna fram að laugardagsmorgni þar sem ég flýg til Knoxville. Tom Waits baby. Er búin að fjárfesta í flugmiða og finna mér sófahýsil. Þannig að ég næ laugardagskveldi í downtown Knoxville ásamt tónleikunum á sunnudagskveldinu áður en ég flýg til NYC á mánudeginum.

Það á víst að vera enn heitara þar.

Velmegunarvandamál.

Friday, June 20, 2008

Missti af fluginu....


Thats right...

Mér tókst nátturulega að missa af fluginu mínu. Ég ætla að spara mér niðurlæginguna og sleppa því að lýsa því ferli. Ég fékk að stökkva á næsta flug til KEF, þannig að ég lendi snemma á laugardagsmorguninn.

Ég hef annars ekkert heyrt af mínum mönnum í því gengi sem Urban er.

Er einhver í bænum eða hvað???

Thursday, June 19, 2008

Annuals, Tom Waits og Modest Mouse

Yeps Annuals í gær á Union Pool.
Modest Mouse í nótt í Music Hall of Williamsburg og
Tom Waits næstu helgi i Knoxville...

En það sem meira er...
Þórsgatan á laugardaginn...

Tuesday, June 17, 2008

Ljósmyndir

Ég sakna Poilaroid myndavélinar minnar...



Þrír dagar í heimferð...

Einhver með lausa dagskrá á laugardagskveldið?

Thursday, June 12, 2008

Hugur leitar heim...


Það flýgur að heimferð. Ég er að vísu enn að bíða eftir staðfestingu á því, en að öllum líkindum mun ég lenda rétt fyrir miðnætti á föstudagskveldi þann 20 júní. Á klakanum bíða mín tveir nýjir fjölskyldumeðlimir. Aníta Sólveig Friðjónsdóttir og Bella Elísudóttir. Það verður heldur ekki leiðinlegt að hitta gömlu fjölskyldumeðlimina...þótt ég hafi hitt þá áður.

Dvöl mín verður stutt þar sem ég flýg aftur vestur þriðjudaginn 24. júni. Hér er brot af því sem ég ætla mér að ná að gera :)

- Heiti potturinn í Kópavogslauginni
- Kjúklingarétturinn hennar mömmu
- Hitta Anítu
- Fram-Breiðablik
- Tala Íslensku
- Ættarmót á Stykkishólmi
- Þurfa að fara í peysu til þess að verða ekki kalt
- Big Daddy-Sha fjölskylduafslöppun
- Kveðjuathöfn fyrir Tercel-inn
- Morgunblaðið í blaðaformi
- Labba um í umhverfi sem ég þekki út og inn
- Roadtrip með bræðrum mínum
- Ristað brauð með smjeri og osti
- Fótbolti með almennilegum mörkum
- Útsýnið af Kársnesbrautinni
- "Landlord" heimsókn á háteigsveginn
....og síðast en alsíst, vonandi ná að hitta á vini og góðkunningja(að öllum líkindum verður laugardagskveldið tilvalið). Einhverjar uppástungur?

Saturday, June 7, 2008

Laugardagskveld í borginni....

Eyddi deginum í að vafra um borgina í 35 gráðu hita. Flúði í vinnunna til að fá loftkælingu. Stakk af þar til þess að sjá Indiana Jones (ekki góð) og er nú að gíra mig upp í að fara á Mehanata: Bulgarian Bar á Ludlow Street. Þessi félagi er að deejeija....
Sum ykkar máski kannast við kauða sem söngspíran úr Gogol Bordello (Eugene Hutz). Hér meðfylgjandi er tónlistarmyndband með hljómsveitinni hans. Sem bæ þe vei var skotinn á fyrrnefndum bar :)



Arlavegana....


Going to get drunk

Thursday, June 5, 2008

Gaman að vera Bliki....

Þessi færsla er tileinkuð Önnu Bergljótu Thorarensen.
Ég var búin að steingleyma þessari mynd þangað til hún setti hana upp á fésbókinni sinni.
Takk Anna BeggaBlikaleikirnir eru nokkuð ofarlega á lista yfir þá sem maður saknar. Mér skilst að þetta sé við sama heygarðshornið. Annar hver leikur er góður. Hvað er annars með Malla? Maður heyrir ekkert af honum?

Annars bendir allt til þess að maður nái Fram-Breiðablik næstkomandi.Maður er á heimleið. Löng helgi og svo er maður floginn aftur í ríki Obama. Kem að öllum líkindum föstudaginn 20. júní og sting svo aftur af 24. júní. Vonandi nær maður að troða sér inn í steggjun eða svo. Jafnvel að lyfta mjöðbjór, einum eða tveimur. Aldrei að vita.

Tuesday, June 3, 2008

Lærlingar, loftkæling og bókasafnsskápar

Eg náði að afreka það að setja upp loftkælingakerfi í herberginu mínu í mitt fyrsta skipti. Hitinn þessa daganna er að skríða upp í 30 gráður þannig að ég gæti fundið vitlausari hluti heldur en að setja upp smá loftkælingu. Sérstaklega miðað við það að sá sem leigði herbergið á undan mér, skildi eftir sig loftkælingarkerfi handa mér.
Eyddi síðustu helgi mestmegnis í það að spila fótbolta í Fort Greene garðinum. Þar er hópur sem kemur saman á hverjum degi til þess að spila tvo tíma í senn. Þannig að maður er orðinn ágætlega grillaður að spila fótbolta í 30 gráðum. Djöfulsins sviti og viðbjóður er það (en samt stórfelld gleði). Eini mínusinn er að þeir spila á hokkímörk vegna þessað það er enginn mörk í garðinum.

Fyrirtækið er að fyllast af lærlingum til þess að skipa fyrir. Það verður áhugavert. Mér skilst að það verða allt að 4 lærlingar á hverjum degi til þess að hlýða öllum mínum duttlungum. Rock & Roll.

Vorum að flytja inn 3 stóra bókasafnsskápa. Þessa sem héldu utan um flokkunarkerfið en eru nú úreldir þegar flest bókasöfn er orðin stafræn. En skemmtilega við það að stærð skúffana fittar fullkomlega fyrir utanaðliggjandi drifin sem fyrirtækið notar fullt af.og svo til þess að uppfylla tónlistarkvótann...
Búin að vera með þetta lag á heilanum seinustu tvær vikur. Elbow er breskt band. Hef ekki heyrt um þá áður og hef ekki hugmynd hvort þeir séu vinsælir eður ei. Skilst að þeir séu búnir að vera að sídan rétt fyrir aldamót.